fimmtudagur, september 06, 2007

Myndir komnar frá Reykjafirði

Hæhæ, fékk myndir frá Judith sendar í pósti svo er loksins búin að koma inn myndum og birta þær. Þá vantar barar myndirnar frá Elínu ;). Þær koma bara síðar :) Er það svo ekki fljótavík næsta sumar? Væri æði ef við gætum fengið bústað þar! Elín og Helga Sigríður ætla að reyna redda því!!! Svo væri fínt ef einhver myndi bjóðast til að sjá um skipulagið fyrir næstu ferð, mikilvægt að ekki þeir sömu séu alltaf að sjá um það :)

laugardagur, ágúst 04, 2007

Smá uppfærsla á síðunni..

Jæja, er búin að breyta fyrirsögninni í hið endanlega nafn gönguhópsins okkar. Setti nýtt look á síðuna og er að sanka að mér myndum frá Reykjafirðinum. Sandra ætlar að koma með myndirnar frá Elínu og Judith suður á mánudaginn en ég er búin að setja inn mínar myndir og Helgu. Ætla samt ekki að birta neinar myndir fyrr en allt er komið svo þið verðið að bíða smá :) Fáið þó hér smá forsmekk....þetta var alveg æðisleg ferð...og ekkert smá gott veður ;)

mánudagur, júlí 30, 2007

Takk takk takk

Hæ öll.
Mig langaði bara að þakka fyrir frábæra ferð. Þetta var rosalega gaman og ég hefði ekki viljað missa af þessu - alls ekki.
Ofurkönurnar Sandra og Edda fá böns af rokkprikum fyrir skipulagninguna og driftina alla saman. Hvar værum við án þeirra. Svo vil ég þakka drengjunum þremur, nýliðunum fyrir skemmtileg viðkynni. Gaman að hitta nýtt og skemmtilegt fólk.

Ef satt skal segja þá er ég nú örlítið lúinn núna, það var erfitt að vakna í morgun og fæturnir stirðir og lúnir. Flugferðin var góð, svaf alla leið og fékk mér ekki einu sinni svala fyrir börnin, ég sem var svo þyrstur. Sit núna við skrifborðið mitt og allt komið á fullt - engin miskun hérna meginn. Get ekki beðið eftir að komast í mánudagsfisk hjá ömmu í kvöld og e.t.v ligg í sófanum fyrir og eftir.

TAKK aftur.
Ykkar, Greipur

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Nokkrir punktar fra mer

Ég ákvað að taka málin aðeins í mínar hendur. Skrifa hérna að hverju ég komst.

1. Ég kem með sameiginlegan mat á föstudag með flugi. Sandra og Össi ætla að ganga í að skipuleggja mattinn og Judith verður lykilpersóna í því líka. Verði ekki flogið verðum við að gera aðrar ráðstafanir með það, og ég hef ákveðnar hugmyndir um það mál. Segi frá því þegar ég er spurður.

2. Eins og Össi sagði þá er laust hús nóttina sem þið komið í Reykjafjörð, það er fimmtudagsnóttina. Ég staðfesti pöntunina á því.

3. Lilla á hugsanlega 1 herbergi svo um helgina, það tekur 4. Meira er það nú ekki. Ég setti okkur á biðlistann með það. Það er ágætt ef einhver veikist (ég tala af eigin reynslu, búinn að vera ómögulegur af ofnæmi núna svo dögum skiptir).

4. Mikilvægt: Ég pantaði mat hjá Lillu fyrir ferðalangana sem koma á fimmtudag, svo þið þurfuð ekki að bera það með ykkur og getið hlakkað til þess að koma í heitan mat hjá Lillu þegar þið komið.

Segi þetta gott í bili.
Kveðja,
Greipur

mánudagur, júlí 23, 2007

Þak yfir höfuðið!

Ég hef unnið hörðum höndum í því að fá okkur inn í húsaskjól í Reykjafirði sem hefur verið þrautin ein :) En sem komið er hef ég fengið hýttu til leigu í sólarhring, fimmtudagsnóttina og aðgang að herbergjum yfir helgina fyrir okkur. Hún Lilla sem ég ræddi við ætlar að taka þetta frá og við ættum að geta gengið að þessu vísu þegar við mætum á staðinn. Að vísu var símasamband við Strandir ekki gott en ég vona að þetta hafi komist til skila. Hún á allaveganna von á fríðum hópi til sín í gistingu svo því er ekki að skipta! :) Kostnaður er 1500 kr per mann nóttin, svo þeir sem vilja nýta sér þessa aðstöðu ættu ekki að láta hana fram hjá sér fara :)

Takk Sandra fyrir að lána mér aðganginn þinn til skrifta :)

Kv. Össi

Reykjafjörður 2007

Jæja, þá er komið að því....

Eru ekki allir orðnir gríðalega spenntir fyrir gönguferðinni í ár, það er ég allavega. Fyrsta ferð verður farin kl 19 á miðvikudaginn frá Ísafjarðarhöfn með Jónasi Helgasyni eins og áður hefur verið sagt. Allir velkomnir með þá. Eru einhverjar aðrar ferðir orðnar staðfestar?

Endilega láta vita, en við erum í einhverjum vandræðum með að koma mat á Reykjafjörð þar sem engin bátsferð er þangað með Reymari eins og ég hafði vonað. Veit að Greipur er að pæla í að fljúga á föstudegi/laugardegi svo hann ætlaði að hafa í huga að taka kannski með matinn....eru einhverjir aðrir sem ætla að reyna fljúga og væru til í að taka með sér matinn? Endilega látið vita, annars verðum við bara að hætta við sameiginlega matinn!!

Gummi bjó til smá búnaðarlista fyrir ferðina sem gott er að hafa á bak við eyrað

Búnaðarlisti - Sumar:


Föt:
· Ullar eða flísundirföt (cintamani,north face, 66°N)
· Flís fatnaður, peysa og buxur
· Vatnsheld öndunarskel (north face,marmot,mountain hardware etc...)
· Göngusokkar (tvöfaldir fyrir þá sem eiga við vandam. að stríða með hælsæri) x2
· Liner sokkar - Undir göngusokka. Koma í veg fyrir hælsæri
· Gönguskór - Vatnsheldir (feitibornir ef leður)
· Flíshúfa
· Dúnúlpa
· Vettlingar, helst vatnsheldir eða með auka skel
· Legghlífar
· Sólgleraugu
· Sundföt
· Aukaföt (sokkar,nærföt, ....)
· Stuttbuxur
Matur:
· Pasta:
· - 3. mínútna (bónus)
· - Ostapasta (bónus)
· - Mountain pro (fjallakofinn, útilíf)
· Smurt (flatkökur,samloka etc í nestisboxi)
· Rúsínur
· Hnetur
· Kex
· Lifrarpylsa
· Vítamín og lýsi
· Kakó með sykurpúðum (Sviss miss)
· Fæðubótarefni út í vatn
· Súkkulaði (snickers sem dæmi)
· Orkustangir
· (Lummudeig (skemmtilegt í morgunmat, muna þá eftir smjöri og sykri))
Búnaður:
· Höfuðljós + Rafhlöður
· GPS Tæki + Rafhlöður
· GSM sími
· Kort
· Bók til að lesa
· Hnífapör
· Pottar
· Pottaklemma
· Primus + Gas
· Kveikjari
· Svefnpoki
· Loftdýna
· Tevur
· Göngustafir
· Aukareimar í gönguskó
· Skyndihjálparsett
· (Duct tape - Til viðgerða)
· Hælsærisplástrar
· Verkjalyf
· Krem
· Salernispappír
· Sólarvörn
· Handklæði
· Tjald
· Plastpokar (fyrir rusl, óhreint og fleira)

mánudagur, júlí 16, 2007

Bátaball í Ögri

Já það er komið að því, svo sannarlega.. hið eina og sanna ;)
Þetta árið er það laugardaginn 21.júlí.. sem þýðir að á næsta laugardag verður stórhittingur í Ögri!

Gaman að segja frá því að samkvæmt bb.is verður ballið með hefðbundnu sniði í ár þar sem Þórunn og Halli spila fyrir dansi og boðið verður upp á rabbabaragraut með rjóma.

Mikil eftirvænting ríkir, meðal aðdáenda, að sjá hvernig hattarnir verða í ár ;)

Oh ég hlakka svoo til að sjá ykkur dúllurnar mínar.. sérstaklega reykjavíkurliðið.. úff það ætti að banna reykjavík á sumrin.. get ekki beðið (takið eftir því að höfuðborgin er skrifuð með litlum staf sökum trega og leiða).

Kveðja
Sandra

föstudagur, júlí 06, 2007

Reykjafjörður 2007


Aðalvík 2005..






Reykjafjörður 2007..

Jæja nú eru bara um 3 vikur í brottför á strandir :) Mig langaði svolítið að koma því á hreint hvenær og hvernig fólk vill fara norður. Mig langar mest að fara á miðvikudeginum (25.júlí), ganga þá yfir í Furufjörð, gista þar og ganga svo yfir í Reykjafjörð á fimmtudeginum (26.). Vera í Reykjafirðinum fram á laugardag og svo sama gönguplan til baka (því mér lýst ekkert á að fara yfir jökul þar sem enginn af okkur þekkir jökulinn og það hefur verið gríðarlegur hiti undanfarið!).

Ég er búin að nefna þetta við nokkra og hef fengið misjafnar undirtektir, veit að Helgu Sigríði (og mig minnir Elínu Mörtu) langar að leggja af stað á fimmtudeginum (26.) og Ingu Ósk á föstudeginum (27.). Svo ég held að við endum á að gera eins og í fyrra, fara í tveimur eða jafnvel þremur hollum.. En það verður bara gaman.. svo lengi sem allir eru glaðir ;)

Edda María hefur tekið að sér að sjá um sameiginlega matinn fyrir okkur, ætlar að versla hann fyrir sunnan og láta ferja hann með Reimari frá Norðurfirði í Reykjafjörð.

Svo er reyndar einn möguleiki til viðbótar.. hann er að þið sem eruð að koma að sunnan getið farið sömu leið og maturinn!! Það tekur 2 til 2,5 klst að keyra afleggjarann frá Hólmavík og út að Norðurfirði (~100 km malarvegur). Þó að auðvitað langi mig til að við löbbum öll saman.. en þetta er líklega mun minna ferðalag frá höfuðborginni.

Endilega kommentið og segið ykkar skoðun á því hvenær þið viljið leggja af stað og hvaðan ;)

Kveðja
Sandra




þriðjudagur, maí 29, 2007

Ofnæmislost
Getur komið fram á ýmsa vegu en allir eiga það sameiginlegt, sem lenda í þessum lífshættulega viðburði, að það verður mikil bjúgsöfnun í lausa vefi. Flestir eru svo óheppnir að það myndast mikill bjúgur umhverfis barkann og erfitt verður um andardrátt, aðrir eru aðeins "heppnari"... :

Við skulum bara sleppa því að fá ofnæmislost á Hornströndum... er það ekki

Ekki við hæfi? Ég veit.. En ég held að próflesturinn sé "farinn" með mig

Kveðja Sandra

laugardagur, maí 19, 2007

Upphafsganga 2007: Hrafnfjörður í Reykjafjörð

Vegalengd: c.a. 17,14 km skv. Landmælingum Íslands
Tími: 5-6 tímar með því að fara rólega (skv. Snorra Hermanssyni)
Dagur: Miðvikudagurinn 25 júlí 2007 - fyrsta holl! (Geri ráð fyrir þremur eins og síðast)
Farið verður frá Ísafirði að morgni með báti í Hrafnfjörðinn og lagt upp að nálægt Álfstöðum. Alltaf hefur verið talið mjög reimt á Álfstöðum. Þekktustu ábúendur á Hrafnfjarðareyri eru eflaust þau Fjalla-Eyvindur og Halla, frægustu útlagar Íslandssögunnar.

Hrafnfjörður í Furufjörð
Upp af botni Hrafnfjarðar er Skorarheiði (188 m). Á syðri bakka Skorarár niður við sjó er komið á rudda götu og liggur hún upp með ánni um svonefndar Andbrekkur. Er þeim lýkur er komið upp á Skorardal og þar liggur leiðin yfir Skorará, sem brúuð var fyrir nokkrum árum á gili uppi í dalnum undir Skorarbrekku, og síðan í bröttum sneiðingum upp Skorarbrekku í dalbotni upp á heiðina. Alla leið yfir heiðina og niður á láglendi Furufjarðar er rudd gata og vel vörðuð og ætti því enginn að geta villst þar hvernig sem viðrar að sumri til. Yfir Skorarheiði var fjölförnust leið norður á Strandir er byggð var á í Grunnavíkurhreppi. Á háheiðinni er Skorarvatn, fallegt stöðuvatn og ganga þar stuðlabergsklettar út í vatnið að norðan.

Furufjörð í Þaralátursfjörð
Gangan hefst í austurhlíð Furufjarðar þar sem gengið er upp hlíðina eftir illgreinanlegum götuslóða. Þegar ofar dregur taka vörður og vörðubrot við og vísa leiðina upp á Reiðhjalla sem liggur ofarlega í fjallinu. Á hjallanum er gatan skýr og vel vörðuð. Vörðunum er fylgt upp í Svartaskarð sem er dálítil lægð í efsta hluta fjallsins þar sem kallast Kjölur. Úr Svartaskarði er gengið sem leið liggur eftir greinilegri götu niður lítt gróna hjalla, þar til komið er að fjallsbrún Þarlátursfjarðar. Þaðan er hægt að ganga niður í fjörðinn um götuslóða. Vörðurnar halda áfram niður Enni, að smágili sem áin Blanda rennur um og niður að vel grónum jökulaurum. Gengið er yfir aurana og að klettahöfða sem stendur við Þaralátursós neðar í hlíðinni og kallast Óspakshöfði.

Þaralátursfjörð í Reykjafjörð
Neðan við Óspakshöfða er vað og þaðan er haldið upp á Reykjafjarðarháls um vel varðaða og skýra götu sem heldur áfram yfir hálsinn alla leið að brúninni hinum megin. Þar blasir Reykjafjörður við.

Heimildir

mánudagur, maí 14, 2007

Útilega í Reykjafirði 26-30 júlí 2007

Jæja, ákvað að skella inn bloggi um plan sumarsins. Ekkert gengur að fá bústað og ákvað ég því að negla niður tjaldútilegu í Reykjafyrði c.a. 26-30 júlí. Greipur ætlaði að reyna redda bústað en hef ekkert heyrt svo held það hafi ekki gengið. Ef einhver ykkar getur reddað bústað einhverstaðar þá væri það æðislegt, þá bara endilega hafið samband við mig, Söndru Dís eða Greip og við getum bloggað um það. Ef einhverjir fleiri vilja fá bloggaðgang þá endilega látið okkur vita og við bætum ykkur við!

Við erum þá allavega búin að ákveða eitthvað en ef bústaður býðst þá bara breytist planið! Held það verði þó alveg fínt að tjalda í Reykjafirði en það er mjög fín sundlaug þar sem hægt er að skella sér í á hverjum degi.

Endilega kommentið strax um hvernig ykkur líst á þetta!

sunnudagur, apríl 15, 2007

Snæfellsjökull á sumardaginn fyrsta

Hæhæ

Hvað segið þið um smá upphitun fyrir sumarið með því að skella ykkur á snæfellsjökull með mér á sumardaginn fyrsta?????? Sjá hér og meðfylgjandi mynd. Ég er allavega að fara með vinnunni, svo endilega skráið ykkur ef þið hafið áhuga og við sjáumst á snæfellsjökli :)